Fegurðin í BDSM

Aðsend grein sem gefur okkur innsýn í BDSM sambönd eftir Sólhrafn Elí Gunnarsson

Svipur, leður, latex, háir hælar, pískar, ólar. Allt er þetta eitthvað sem fólk hugsar þegar það heyrir BDSM. Það er mikið sem vantar í þennan lista auðvitað, eins og traust, virðingu, umhyggju, ást en líka áhættu og fleira.
Ekki allir átta sig á því að BDSM er mjög fallegt þegar rétt er farið að. Í heilbrigðu BDSM sambandi er traustið gríðarlegt, maður leyfir ekki hverjum sem er að binda sig.

Það er þörf á að sýna dýptina sem kemur í BDSM sambönd, of oft er umræðan svo yfirborðskennd. 

 

Þegar ég byrjaði að stunda BDSM fór ég að skoða sjálfan mig meira, hvað ég vil og hvað ekki, hvernig ég vil vera sem manneskja, hvernig ég hegðaði mér áður og hvernig ég hegða mér nú. Ég vil meina að ég hafi ferðast langar leiðir og er enn að forvitnast og fræðast.
Fólk sem stundar BDSM á heilbrigðan máta þarf að gera slíkt hið sama, af því að maður þarf að vita hvað maður vill, maður þarf að skoða sjálfan sig, maður þarf að æfa sig í samskiptum.
Senan er ekki stór á Íslandi, fyrir þá sem ekki vita þá er “senan” það sem við köllum félagslífið hjá BDSM fólki.

Hópurinn sem ég kynntist innan senunnar er mér mjög kær, þetta er fólk sem ég vil berjast fyrir svo að þau fái að vera eins og þau eru í friði. Andrúmsloftið í hópnum okkar er umlukið væntumþykju og faðmlögum, við heilsumst venjulega með því að knúsa hvort annað innilega. Mér þykir ég vera einstaklega heppinn, ég kom í hóp sem þykir vænt um mig. Við hugsum vel um hvort annað. Í hita leiks, ef eitthvað gerist, koma allir saman til að athuga hvort allt sé í lagi. Ef eitthvað kemur uppá er allt gert til að öllum líði sem best. Einn fer og nær í vatn meðan annar nær í teppi og kodda og hinir hlúa að eins og þörf krefur.

En BDSM er ekki endalaus alvarlegheit, við grínumst við hvort annað og hlæjum mikið saman. Um daginn var haldið leikpartí, þar lék ég við 3 manneskjur á sama tíma. Ég og vinkona mín vorum bundin við borð meðan tveir aðrir vinir okkar notuðu á okkur svipur, píska og annað skemmtilegt. Meðan þeir voru að skiptast á að slá í okkur hittu þeir í prikin hjá hvor öðrum og fóru að “skilmast”. Á öðrum tímapunkti voru þeir að hlaupa í kringum borðið eins og þeir væru að elta hvorn annan og dangla í mig og vinkonu mína þegar þeir fóru framhjá.

 
Ég vonast til þess að fræða fólk meira í framtíðinni eins og ég geri í dag, því að með fræðslu verður meiri skilningur og við fáum að komast betur á yfirborðið. Ég vil ekki að neinn skammist sín fyrir að stunda eða vera fyrir BDSM.