Hveru lengi er nógu lengi?

Tíminn er afstæður!
Mörg okkar kannast eflaust við að vera með fjölbreytilegt tímaskyn t.d. það að finnast árið nýbyrjað í júlí! 


Af sömu ástæðu, ef við værum spurð að kynlífi loknu hversu lengi við héldum að við hefðum verið að, hefðum við mögulega engin svör heldur.


Við vorum augljóslega ekki að stunda samfarir í tvær klukkustundir, alls ekki klukkutíma, en kannski tuttugu mínútur? Við vorum alveg í góðan tíma bara í sleik... þannig að mögulega 10 mínútur?
 
Þetta á sérstaklega við þegar við erum svo heppin að njóta okkar svo vel í kynlífi að við erum góða stund eftir á að komast aftur niður á jörðina og muna hvar við erum og hvað við heitum. Þá eru svo gott sem núll líkur á að við föttum hvort við höfum byrjað fyrir fimm mínútum eða 50.


Hér er kannski góður tími til að taka fram, að kynlíf er alls konar og inniheldur allt það sem okkur og leikfélögunum finnst gott og skemmtilegt að gera. Hvort sem það inniheldur innsetningu eða ekki, hvort sem það endar í fullnægingu eða ekki. Þegar talað er um samfarir í þessari grein er verið að meina partinn af kynlífi þar sem fullnægingu annars eða beggja einstaklinga er reynt að ná með innsetningu typpis eða leikfanga inn í leggöng eða endaþarm.


En þá er stóra spurningin, hversu lengi er fólk almennt að stunda samfarir? Eða enn betri spurning, hversu lengi eiga samfarir að endast?

Fjögurra vikna rannsókn var gerð, þar sem 500 pör tóku tímann á ýmsum athöfnum í kynlífi, og þetta skilaði sláandi tölfræði... meðaltími samfara er rúmlega fimm mínútur.

Við vitum alveg hvað þið eruð að hugsa. Hvernig geta samfarir almennt bara verið nokkrar mínútur? 

Já, fljótt á litið virkar það rosalega stuttur tími. En eftir því sem við lítum betur á kringumstæður rannsóknarinnar þá fara hlutirnir að smella. Þarna var tekið mið af 500 pörum sem þekkja hvort annað vel og þekkja líkama hvors annars vel. Þegar við vitum hvað virkar erum við líklegri til þess að bara halda ótrauð áfram og þá ganga hlutirnir oft hraðar fyrir sig.


Annar áhugaverður partur af niðurstöðunum var hversu ótrúlega stór skalinn var. Þó meðaltíminn hafi verið rúmar fimm mínútur, þá voru svörin allt frá 38 sekúndum upp í 44 mínútur.

Þessi gífurlegi munur varpar fram spurningunni; er eitthvað sem heitir venjulegt í þessu?

Er þetta ekki bara spurning um hversu stutt eða lengi við viljum stunda kynlíf og hversu stutt eða lengi við viljum hafa samfarir?

Ef meðallengd samfara eru fimm mínútur... hvað vill fólk að þær endist lengi?

Rannsókn sem gerð var á því hvað þátttakendum fannst vera fullkominn endingartími, sýndi fram á að meirihluta svarenda þóttu samfarir sem endast í 7-13 mínútur vera eftirsóknarverðar, en 3-7 mínútur þó vera nægilegur tími.

Þeim skilaboðum hefur lengi verið haldið að okkur, sérstaklega að karlmönnum, að meira úthald í samförum þýði betra kynlíf. Þessi predikun hefur verið áberandi í marga áratugi, í bæði greinum, kvikmyndum, þáttum og jafnvel lagatextum.

En skiptir þetta okkur raunverulega máli?

Raunin virðist vera sú að tíminn sjálfur skiptir í raun litlu, það sem er mikilvægt er hvernig hann er notaður!

Engar kröfur, engin pressa... bara njóta saman!


LeslieBeth Wish, sem er viðtalsmeðferðarfræðingur, geðlæknir og höfundur "Smart Relationships", sagði eftirfarandi:
"Ekki meta kynlíf eingöngu út frá lengd og úthaldi. Kynlíf snýst um unað beggja aðila, og þá geta 'quickies' ekki síður fullnægt okkur. Aftur á móti geta mjög langar samfarir farið að valda bæði stressi og álagi á vöðva og slímhúð."

Hún bætir við "Ekki bara pæla í tímanum sem fer í samfarir þegar þið hugsið um hversu langan tíma kynlíf tekur. Sumar konur t.d. upplifa mun meiri unað og eiga auðveldara með að fá fullnægingu fyrir eða eftir samfarir."

Heyr heyr!

Í stað þess að eyða orku í að velta okkur uppúr því hversu margar mínútur samfarir eru að endast... vöndum okkur við að gera vel! Erum við að eiga góð og opin samskipti? Erum við að láta vita hvað okkur finnst gott og hvað við viljum? Erum við að gera tilraunir og prófa eitthvað nýtt reglulega?
Og umfram allt: Erum við ekki að skemmta okkur?


Farið og leikið og njótið og prófið eitthvað nýtt! Klukkan skiptir engu máli og það er ekkert sem heitir "mætingartími" í góðu kynlífi.